Tækni sem sýnir áhrif umhverfisbreytinga og mannlegs áreitis á fisk
October 9. - 2023

Tækni sem sýnir áhrif umhverfisbreytinga og mannlegs áreitis á fisk

Hverju skilar tæknin?

Velferð fiska og sjálfbærni fiskeldis hefur verið mikið í umræðunni undanfarið og mun meiri áhersla er á þessa þætti en áður um heim allan. Star-Oddi býður upp á brautryðandi tækni sem sýnir áhrif umhverfisbreytinga og mannlegs áreitis á eldisfiska og gerir stjórnendum eldisfyrirtækja kleift að nota þær upplýsingar til að minnka hin skaðlegu áhrif á fiskinn, auka velferð hans og þar með gæði afurðanna.

Hvaða tækni er þetta?

Star-Oddi hefur þróað hjarta- og virknismæla sem hafa gagnast vel í rannsóknum á fiski, bæði villtum fiski og eldisfiski. Það hefur sýnt sig að það er beint samhengi á milli hjartsláttartíðni, eða púls, og stress í fiskum. Star-Oddi er í dag eina fyrirtækið í heiminum sem býður upp á þessa mæla til notkunar í fiski, en mælarnir hafa enga utanáliggjandi víra. Þessi einstaka hönnun gerir að verkum að ígræðslan í þá er mjög einföld. Tæknin hefur hlotið mikla viðurkenningu og hafa yfir 100 fræðigreinar verið birtar í virtum vísíndatímaritum, svo sem Aquaculture og Journal of Fish Biology.

Hvernig fara mælingarnar fram?

Mælarnir eru græddir í ákveðinn fjölda fiska og þeim síðan sleppt í kvíina þar sem þeir lifa sínu lífi án nokkurs auka áreitis við mælingu. Hegðun hvers og eins fisks (dýpismælingar) og lífeðlisfræðibreytingar hans (hjartsláttur og virkni) eru mældar. Mælirinn mælir hjartsláttartíðni en getur einnig mælt hve mikið, hve hratt og öfugt hve lítið, fiskurinn er virkur. Þetta gefur til kynna hegðun fisksins undir ákveðnum aðstæðum.

Hvernig hefur þessari aðferðafræði verið tekið?

Star-Oddi er nú þegar með nokkur hundruð viðskiptavina í fiskeldi á alþjóðavísu, bæði á landi og í sjó, en einnig viðskiptavini sem eru að skoða villta fiska. Helstu markaðirnir eru í Svíþjóð, í Noregi og síðan Kanada en yfir 2000 mælar hafa verið seldir nú þegar. Salan fór vel af stað árið 2020 og gert er ráð fyrir góðri aukningu í sölu.

Nytsemi þess að mæla atferli fisksins í kvínni

Þrír þættir sýna fram á nytsemi mælinganna og hvernig má nýta niðurstöður þeirra

  1. Bestun á meðhöndlun og fóðurgjöf

Atferli fiska þýðir í raun hvað fiskurinn er að gera í kvínni eða tankinum. Þetta inniheldur sundhegðun t.d. hraða og reglulegt eða óreglulegt sund, staðsetningu í kvínni út frá dýpi og hitastigi og hjartsláttatíðni sem er þá bein mæling á líkamsstarfsemi fisksins. Þessar mælingar geta verið tengdar við fóðurgjöf eða önnur  umhverfisáhrif. Með því að greina þessi gögn er hægt að ná sem bestri fóðurgjöf og meðhöndlun á fisknum til að minnka streitu, sem getur leitt til aukins vaxtahraða.

  1. Lágmörkun streituvaldandi þátta sem auka velferð fisksins

Velferð fiska tengist ótrúlega mörgum hlutum en hjartsláttamælingarnar eru sérstaklega notaðar til að skoða streituvaldandi þætti. Með því að fylgja fisknum eftir svo mánuðum skiptir er hægt að sjá frávik frá eðlilegri líkamsstarfsemi og tengja þau við innri þætti svo sem sjúkdóma, sár og áhrif af t.d. laxalús eða ytri þátta eins og hitastig og súrefni í sjókví. Enn eitt dæmið eru áhrif af svokölluðum umhverfisbótum (e. environmental enrichment) þar sem reynt er að auðga umhverfi fisksins og gefa honum þar með tækifæri á að sýna sína náttúrulega hegðun sem hefur þau áhrif að streita minnkar.

  1. Áhrif umhverfisþátta, t.d. sjávarhita á fiskinn

Stöðugt er stefnt að kynbótum á eldisfiski og er hitaþol fisksins ein helsta kynbótin sem sóst er eftir. Þar telur til dæmis hvort fiskurinn getur synt betur, þolað betur sjúkdóma eða miklar sveiflur í umhverfishita. Flestir fiskar eru með kalt blóð og því er mjög sterkt samband á áhrifum umhverfishita á hjartsláttartíðni. Á Íslandi er kuldinn oftar meira vandamál en á svæðum eins og Nýfundnalandi þar sem er mikið laxeldi. Þar getur sjávarhitinn við yfirborð verið nálægt frostmarki á veturna en farið upp í allt að 25°C á sumrin. Hitasveiflur geta haft miklar afleiðingar þó nýjustu rannsóknir sýna að hitastigið eitt og sér er yfirleitt ekki nóg til að valda laxadauða. Það er meðal annars það sem Kurt Gamperl og Rebeccah Sandrelli (sjá fyrir neðan) rannsaka einna helst.

 

Vísindamaður segir frá nytsemi mælanna í eldisfiskum á Lagarlíf

Rebeccah Sandrelli sjávarlíffræðingur og aðstoðamaður Kurts Gamperls, eins fremsta vísindamanns á sviði rannsókna á umhverfisáhrifum á fisk og fiskeldi í heiminum, var með framsögu á ráðstefnunni Lagarlíf um nytsemi þessara hjarta- og virknismæla í eldisfiskum. 

Um Kurt og hans störf

Kurt Gamperl er samanburðarlífeðlisfræðingur sem hefur einbeitt sér að skoða áhrif umhverfis- og lífeðlisfræðilegra þátta á líffræði fiska. Hann hefur lengi rannsakað fisk bæði í sjó og ferskvatnsfisk. Þeir þættir sem hann hefur aðallega skoðað eru súrefnisupptaka, virkni hjartans, og áhrif streitu á fiskinn almennt. Hann vinnur að aukinni sjálfbærni í fiskeldi og áhrifum á vistfræði villtra fiska.

Frekara efni um Kurt

https://www.mun.ca/osc/dr-kurt-gamperl/

https://www.scientia.global/dr-kurt-gamperl-exploring-how-fish-adapt-to-climate-change-sustainable-aquaculture-and-species-conservation/

 

 Samantekt um notkun mælanna í fiskeldi má finna hér.